Dæmi um vöruþróun og stefnubreytingar vegna Covid
Það getur verið flókið að fóta sig við breyttar markaðsaðstæður og enn flóknara þegar óvissan er eins mikil og hún er í dag. Mörg fyrirtæki hafa getað mætt þessum breytingum, sérstaklega þau sem voru þegar öflug á netinu. Sum fyrirtæki eiga þó einfaldlega engan annan kost í stöðunni en að loka á meðan önnur hafa tekið hliðarspor eða algjöra U-beygju til að mæta breyttum aðstæðum. Hér er smá listi yfir skemmtilegar og skapandi hugmyndir hjá fyrirtækjum sem hafa gripið þau tækifæri sem hafa gefist.
Vöruþróun hjá veitingastöðum
Það má reikna með því að allir þeir veitingastaðir sem hafa vöruframboðið og möguleikann á að bjóða uppá “Take away” eða heimsendingu, bjóði í dag upp á þá þjónustu. En sumir veitingastaðir framleiða mat sem hentar illa fyrir slíka þjónustu og hafa því þurft að aðlagast nýjum tímum með breyttu sniði.
Skál! er eitt slíkt fyrirtæki sem hefur aukið vöruframboð sitt með SKÁL! – Eldað heima. Skál! kemur með skemmtilega nálgun inn á markað sem þegar er þétt setinn af öðrum fyrirtækjum t.d. Eldum Rétt, Einn, tveir og elda, Happ og fleiri, sem öll hafa sína aðgreiningu.
Svipaða sögu er að segja af Ramenmomo, sem hafa hannað flottan “eldum heima” pakka og bjóða uppá skyndinámskeið í Ramen gerð.
Erlendis hafa veitingastaðir einnig aukið vöruframboð eða hreinlega tekið U-beygju. Shake Shack hönnuðu “DIY Shake Shack x Pat LaFrieda ShackBurger® Kit.“, m.ö.o. pakka af 8 hamborgurum sem þú eldar og setur saman heima. Evo Italian tóku skrefið lengra og opnuðu matvöruverslun og heimsendingu til að mæta skorti á ýmsu hráefni sem erfitt var að finna út í búð.
New Balance og Brooks Brothers
Skóframleiðandinn New Balance, sem rekur fjöldann allan af verksmiðjum í Bandaríkjunum, reið á vaðið og ákvað að nýta hluta af framleiðslugetu sinni til að framleiða andlitsgrímur, fremur en skó. Markmiðið var að framleiða um 100.000 grímur á viku um miðjan apríl. Aðrir framleiðendur fylgdu á eftir og hafa t.d. Brook Brothers ákveðið að leika sama leik.
Escape Room
Escape room fyrirtæki má finna um allan heim, meira að segja í Reykjavík. En nú þegar allt er lokað hafa sum þeirra tekið af skarið og verið skapandi í sínu vöruframboði og markaðsstarfi. Mobile Escape er eitt af þessum fyrirtækjum. Frekar en að loka og bíða ástandið af sér ákváðu eigendur að demba sér í vöruþróun og búa til Escape Mail, þrautaleik sem er sendur heim að dyrum. Hugmyndin sló svo í gegn að Mobile Escape hafa nú gert hana að varanlegri vöru á vef sínum. Önnur fyrirtæki hafa nýtt VR tækni og boðið notendum upp á að skoða þrautirnar í gegnum netið.
Úr spíra í spritt
Nokkur fyrirtæki sem dags daglega framleiða ýmiskonar áfengi hafa skipt yfir í framleiðslu á spritti, að hluta eða öllu leyti. Þar má nefna BrewDog og hérlendis reyndu Volcanic Drinks fyrir sér.
Just to be clear, we will not be selling the sanitiser. But giving it away to those who need it. pic.twitter.com/hLjJLhjpuW
— James Watt (@BrewDogJames) March 18, 2020
The SnapBar
Það verður svo sannarlega lítið um mannamót á næstunni og því lítið að gera fyrir fyrirtæki eins og The SnapBar sem bjóða upp á “selfie bása” í veislur og ýmislegt annað til að lífga uppá veisluna. Í stað þess að sitja auðum höndum hafa þau aukið vöruúrvalið, boðið afslátt á bókunum fram í tímann og stutt við minni framleiðendur í nærumhverfi sínu.
Bílabíó
Sum fyrirtæki hafa ekki þurft að breyta miklu, t.d. þau sem ráku bílabíó, vinsældir þeirra hafa bara aukist. En sum kvikmyndahús hafa þó riðið á vaðið og opnað bílabíó á meðan þau geta ekki haldið kvikmyndahúsum sínum opnum. Dæmi um það eru Evo Entertainment og Smárabíó.
Ef það er rólegt að gera hjá þínu fyrirtæki og þig vantar hugmyndir þá er fínt að nýta tímann næstu vikur til að læra eitthvað nýtt eða rifja upp gamla takta. Við tókum saman lista yfir frí námskeið sem hægt er að skoða hér. Vöruþróun er nefnilega lífsnauðsynleg fyrirtækjum til langs tíma.