Google Search Console

Tæknileg leitarvélabestun (e. technical SEO)

Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að leitarvélabestun á vefsvæðum. Leitarvélabestun er þó ekki geimvísindi heldur tiltölulega einföld fræði. Í grunninn snýst þetta um að svara spurningum notenda á réttum tíma.

Notendur spyrja leitarvélar spurninga, hvort sem það er Google, Bing, Yahoo! eða YANDEX, með því markmiðið að fá svör við þeim spurningum. Það er því mikilvægt fyrir eigendur vefsvæða að huga að þessum spurningum og svörum í samræmi við þeirra þjónustu og vöruframboð.

En til þess að “komast efst á Google” er ekki alltaf nóg að vera bara með rétt svör. Fjölmörg vefsvæði geta svarað sömu spurningum, á svipaðan hátt og keppa því um athygli notenda. Því er mikilvægt að allur tæknilegur grunnur sé réttur og framkvæmdur á sem skilvirkastan hátt.

Leitarvélabestun er oft skipt upp í þrjá flokka

  1.       Tæknileg leitarvélabestun (technical SEO) – Tæknileg atriði á vefsvæði
  2.       Leitarvélabestun vefsvæðis (on-site SEO) – Efnissköpun, framsetning og samhengi
  3.       Leitarvélabestun utan vefsvæðis (off-site SEO) – Tenglabygging, markaðssetning á samfélagsmiðlum og fleira.

Þessi grein fjallar um tæknilega hlutann, sem oft er auðveldast að ná hratt og örugglega utan um. Í stuttu máli snýst tæknileg leitarvélabestun um að gera vefsvæði aðgengileg fyrir leitarvélar, hafa uppbyggingu vefsins auðskiljanlega og hraða, lágmarka villur og passa að vefsvæði sé læsilegt í snjalltækjum.

Lykilatriði í tæknilegri leitarvélabestun

Hér eru nokkur lykilatriði sem þarf að hafa í huga þegar framkvæma á tæknilega leitarvélabestun. Mikilvægt er að renna í gegnum þessi atriði og meta hvort þau séu í lagi á vefum. Þetta er ekki tæmandi listi en með greiningartólum eins og SemRush og Screaming Frog er hægt að ná heildstætt utan um vefsíður.

  • Aðgengi að vef (e. crawlability): Gakktu úr skugga um að leitarvélar geti auðveldlega skriðað og skráð allar síður á vefum. Passa upp á að Robots.txt og Sitemap skjöl séu til staðar og í lagi.
  • Farsímavænn vefur (e. Mobile-friendliness): Notkun farsíma eykt og eykt og því verða vefsvæði að koma til móts við þau tæki. Síður þurfa að hlaðast hratt og vera hannaðar fyrir bæði snjalltæki og tölvur. Google refsar vefsvæðum sem eru ekki aðgengileg á snjalltækjum.
  • Merkingar á efni: Passa að H1 tögg sé í samræmi við innihald hverrar síðu auk millifyrirsagna. Mikilvægt er að meta descriptions séu skilgreind, alt-tag séu á myndefni og að Open Graph tögg séu skilgreind.
  • Innri hlekkjun (e.Internal linking): Með því að hlekkja efni rétt innan vefsvæðis er bæði auðveldar fyrir notendur og leitarvélar að vafra um vefsvæðið. Innri hlekkjum kemur einnig inná on-site SEO hluta leitarvélabestunar. Mikilvægt er að síður séu ekki munaðarlausar (e. orphan pages) og að redirect og canonical séu rétt stillt.
  • Hraði á vef: Hægir vefir draga úr ánægju notenda. Leitarvélum er meinilla við að senda notendur á vefsvæði sem eru hægt og valda því mögulega að notendur hætti við og fari aftur til baka í leitarvélina. Því er mjög mikilvægt að vefsvæði séu hröð, bæði í snjalltækjum og í tölvum.
  • Öryggi: Að tryggja að vefsíðan þín sé örugg er mikilvægt fyrir bæði traust notenda og stöðu í leitarvélum.
  • Schema gögn: Innleiðing á schema gögnum getur margborgað sig. Review snippet getur til að mynda aukið traust notenda mikið til fyrirtækja og komið vefsvæðum ofar en ella á Google.
  • Vefmælingar: Rétt uppstilling greiningar- og vefmælingar getað hjálpað við að grípa villur og finna vandamál á vefsvæðinu. Google Analytics er gott greiningartól sem vinnur vel með öðrum Google þjónustum og hentar því mjög vel til greininga í leitarvélabestun.

Það má líkja tæknileg leitarvélabestun við húsgrunn. Ef hann er ekki í lagi þá er mögulega betur heima setið en af stað farið. Það er erfiðara að koma góðu efni ofarlega á leitarvél Google ef tæknilegi grunnurinn er ekki í góðu lagi og því mikilvægt að fjárfesta einnig í þeim hluta. Fjölmargir efnismiklir og fallegir vefir standa sig ekki vel á Google, einfaldlega vegna vandræða með tæknilega hlutann í leitarvélabestun.

Tól fyrir tæknilega leitarvélabestun

Hér eru hlekkir inn á nokkur fín tól sem geta gefið góða mynd af stöðu vefsvæði í leit og lista yfir hvað þarf mögulega að laga á tæknihliðinni.

Ítarefni um leitarvélabestun

Mjög mikið hefur verið skrifað erlendis um leitarvélabestun. Hér eru nokkrar góðar greinar á ensku til að ná enn betri tölum á hugtökum og framkvæmd leitarvélabestunar.

Yfirgripsmikil grein frá Semrush um grunnatriði leitarvélabestunar

Leitarvélabestun fyrir WordPress